154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hans ræðu hér. Það var nú allmargt áhugavert sem þar kom fram, svo sem eins og að tala um glundroða og að þessi kona sem hér stendur kunni sennilega ekki að reikna og átti sig ekki á því að stjórnarandstaðan er 25 þingmenn á meðan ríkisstjórnarflokkarnir hafa stuðning 38 þingmanna. Jú, þessi kona kann að reikna og ég sé að þarna munar 13 þingsætum. Ég bjóst ekki við því að þið væruð það illa stödd í þessari hæstv. ríkisstjórn að 13 eða 14 eða fleiri af ykkar fylgitunglum myndu nú hreinlega greiða atkvæði með þessari vantrauststillögu þannig að það er bara heiðarlegt og einlægt að segja nákvæmlega hvað ég tel að komi hér fram. Ástæðan fyrir því að ég er að lýsa vantrausti og mæli fyrir þessari vantrauststillögu er einfaldlega sú að ég er að mótmæla því að það virðist vera sem svo að valdmörkum ráðherra í þessari ríkisstjórn séu engin takmörk sett. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þessi vantrauststillaga kom fram. Talandi um glundroða og að eyða tíma þingsins — þetta er svo gjörsamlega galið og eiginlega furða ég mig á því að hæstv. ráðherra skuli í rauninni koma með svona furðuleg innlegg í umræðuna þar sem það tók þau átta vikur ríflega að sjóða saman þessa ríkisstjórn árið 2021, þar sem það tók ríflega tvo daga um daginn að sjóða saman þetta gamla vín til að reyna að hella því á einhverja ímyndaða nýja belgi. Og svo segir hæstv. fjármálaráðherra hvorki meira né minna upp í opið geðið á landsmönnum að verðbólgan sé að lækka. Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef, samanber verðbólgu síðasta mánaðar, þá hækkaði hún um 0,2%, hæstv. ráðherra.